Starfsfólk: Vala


logo           Vala Guðmundsdóttir, 
ljósmóðir & núvitundarleiðbeinandiVVG

Ég er ljósmóðir með sérhæfingu í ómskoðunum í kvensjúkdóma- og fæðingarfræðum. Ég stundaði námið í Hollandi, þar sem ég var búsett í þónokkur ár.
Um þessar mundir vinn ég á Fósturgreiningardeild Landspítalans, hjá Hugskrefum og hjá 9 mánuðum heilsumiðstöð við snemmsónar skoðanir.

Núvitund / mindfulness kynntist ég árið 2011 og hreifst mikið af þessari einföldu aðferð til að tækla lífið sem stundum getur verið flókið. Maður veit að hugurinn er öflugt tæki, en að hann sé svona máttugur finnst mér ég hafa upplifað í gegnum mindfulness æfingarnar.
Þær eru púl, taka oft verulega á en færa mér jafnframt nýja sýn inn í sjálfa mig, og aðra. Það heillar mig hve jarðbundin aðferð þetta er og kraftmikil. Eftir að hafa farið tvisvar sinnum á 8 vikna Mindfulness Based Stress Reduction námskeið (MBSR), sem öll önnur námskeið í núvitund eru byggð á, ákvað ég að fara á kennaranámskeið sem ég lauk árið 2014.

Sem ljósmóðir hef ég leiðbeint mörgum konum á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu. Eins og þetta er stórkostlegt ferli, fylgir því oft tilfinningarússíbani vegna allra hormónabreytinganna og líkamleg óþægindi. Konur eiga misjafnlega auðvelt með að samþykkja ´það sem þær vilja ekki að sé til staðar´ og takast á við þetta tímabil. Allt í einu er engin stjórn lengur á líkama né huga, þá grípa okkur allskonar tilfinningar eins og hræðsla, reiði, pirringur, sorg og svo framvegis. Núvitund er einföld og auðveld leið fyrir flesta til að eiga við þetta allt saman af því að með þessari aðferð æfir maður sig í að leyfa því sem er til staðar að vera eins og það er. Hlutirnir hverfa hvort sem er ekki, þótt við forðumst þá. Stundum hjálpar að gefa þeim bara rými og athygli.
Lokarannsókn mín í ljósmóðurfræðum í Hollandi, var um áhrif 8 vikna núvitundarnámskeiðs á upplifun kvenna á meðgöngu, fæðingu (þar sem lítið annað kemst að en núið!) og fyrstu tvær vikurnar eftir barnsburð. Niðurstöðurnar  urðu til þess að ég sannfærðist um að það að leiðbeina konum á meðgöngu með núvitundaræfingum væri eitt það besta sem ég gæti gefið af mér sem ljósmóðir fyrir mæður og verðandi mæður, með öllu sem því hlutverki fylgir.

Blaðagrein um Völu sjá hér.